Alma Dögg Torfadóttir hefur mátt þola ofsóknir af hendi ókunnugs manns í áratug, eða frá því hún var aðeins átján ára gömul. Maðurinn er heltekinn af henni og þráir ekkert heitar en ást hennar og athygli. Alma hefur ítrekað reynt að losna úr klóm hans en án árangurs, enda eru engin viðurlög við ofsóknum sem fela ekki í sér líkamlegt ofbeldi. Alma segir áhrifamikla sögu sína í þættinum og lýsir því hvernig hún hefur þurft að lifa í stöðugum ótta í um þriðjung ævi sinnar.
Saga Ölmu Daggar er sláandi en ofsóknirnar hafa áhrif á fleiri en hana sjálfa. Alma Dögg er fædd og uppalin á Akranesi þar sem allir hennar nánustu búa - rétt eins og maðurinn sem er haldinn þráhyggju gagnvart henni og hefur hrellt hana síðustu tíu ár. Foreldrar hennar hafa ekki farið varhluta af manninum en símtöl, skilaboð og tölvupóstar til þeirra hlaupa á þúsundum.
Þau voru kærkomin kynnin við nýja manninn. Hún var nýskilin við barnsföður sinn og var að koma undir sig fótunum að nýju, komin í eigin íbúð og bjartsýn á framhaldið. Þar til allt breyttist. Maðurinn var allt annar en hann þóttist vera í fyrstu og hótanir og ógnanir urðu daglegt brauð. Við heyrum sögu Anítu Runólfsdóttur í þriðja þætti af Ofsóknum.
Hvað er það sem drífur eltihrella áfram? Hvers vegna ofsækja þeir annað fólk? Eru þetta andleg veikindi eða gerist þetta eftir höfnun? Rætt er við sérfræðinga sem reyna að greina hegðun þeirra sem hrella.
Séra Karen Lind segir skuggalega sögu sína af manni sem varð heltekinn af henni. Hann beitti hana andlegu og líkamlegu ofbeldi árum saman og lokaði hana inni. Karen tókst að flýja og við tók erfið sálfræðimeðferð sem skilaði henni á betri stað í lífinu - þó hún geti ekki lifað því alveg eins og allir aðrir enn þann dag í dag
Við höldum áfram með skuggalega sögu Karenar Lindar sem náði að losa sig úr klóm eltihrellis sem beitti hana bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi. Eiginmaður hennar og systir lýsa því hvernig það var að horfa upp á ofbeldið, og hvernig Karen tókst að komast á góðan stað í lífinu.