Í Stykkishólmi skoðar Andri afslappað bæjarlífið í bongóblíðu. Hann rekur nefið inn á Vatnsminjasafnið og forvitnast um hvað í ósköpunum það er. Andri og Tómas kíkja í hádegismat til Kela "Rokk" kokks á Langholti á Snæfellsnesi. Þar þarf Andri að flaka nýveiddan fisk upp á eigin spýtur. Til að ná fiskilyktinni af sér dýfir Andri sér svo til sunds í Lýsuhólalauginni lífrænu. Í Borgafirði ramba þeir Andri og Tómas svo inn í hjólahýsahverfið við Galtarholt og er sem opnist gátt inn í aðra áður óséða veröld.