Þegar við skildum við þá þremenninga, Georg, Daníel og Ólaf Ragnar, var Georg leiddur burt í handjárnum eftir að ljóst var hver þáttur hans var í hvarfi Guggu hótelstýru í Bjarkalundi. Fangavaktin hefst þegar þeir Georg og Daníel hefja afplánun en Ólafur Ragnar gerir sér enn og aftur vonir um skjótfenginn gróða og glæstan frama á nýjum starfsvettvangi sem eldhress fasteignasali. En til að gera langa sögu stutta veit Ólafur Ragnar ekki fyrr en hann hefur komið sér í tómt klandur og sameinast því enn og aftur félögum sínum í fangelsinu.
Ómissandi heimildar- og skemmtiþáttur um tilurð Næturvaktar, Dagvaktar og Fangavaktar. Í þættinum skyggnumst við á bak við tjöldin, viðtöl við helstu leikara, leikstjóra, framleiðanda og síðast en ekki síst við fjöldamarga gestaleikara og þekktar persónur úr mannlífinu sem með einum eða öðrum hætti hafa komið að þessum vinsælu þáttum.
Sérstakur þáttur af Fangavaktinni sem inniheldur brot af því besta úr þáttaröðinni.