Alice og Dave koma í trúlofunarferð til Íslands sem endar með ósköpum. Mikið óveður er á Vestfjörðum og smit koma upp á hjúkrunarheimili í Bolungarvík. Landsmenn hamstra mat og hlífðarfatnaður er á þrotum en þríeykið finnur leið til að fá sendingu til landsins.
Bakvörður á Bergi í Bolungarvík er handtekinn og uppnám verður á spítalanum á Ísafirði. 102 ára kona smitast af COVID-19 og allt er gert til að hemja útbreiðslu smita.
Ragnar veikist af COVID-19 og fjölskylda hans liggur á glugganum og hvetur hann áfram. Þríeykið skipuleggur aðgerðir á landamærunum til að koma í veg fyrir að smit berist til landsins.
Hjónin Villi og Ludi liggja bæði á gjörgæsludeild í öndunarvél með COVID-19. Smitrakningateymið reynir að ná utan um smit í Pepsi-deildinni í fótbolta og Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er í uppnámi.
Reykvíkingar flykkjast á djammið og smitum hríðfjölgar í kjölfarið. Þríeykið ákveður að loka vínveitingastöðum. Sjúklingar á Landakoti smitast einn af öðrum og dánartölur hækka hratt. Smitaðir einstaklingar eru sendir á hjúkrunarheimili á landsbyggðinni.
Hjúkrunarfræðingurinn Sóley fer á vakt á gjörgæsludeildinni þar sem allt er gert til að bjarga manni sem er haldið sofandi í öndunarvél. Víðir smitast og fólk spyr hvort það eigi að hætta að hlýða Víði. Þríeykið fær morðhótanir og Gylfi og starfsfólkið í farsóttarhúsum sinnir fólkinu sem er á jaðri samfélagsins.
Gylfi er orðinn þreyttur og tekur á móti gesti í farsóttarhúsið rétt fyrir klukkan sex á aðfangadagskvöld. Kári og Þórólfur gera lokatilraun til að ná samningi við Pfizer. Bóluefnin koma til landsins og hópur fólks mótmælir þeim.
Bólusetningar hefjast og jörð byrjar að skjálfa. Víðir segir að eldgos sé ekki það sem við þurfum í miðjum faraldri. Smitrakningarbarn fæðist og lífið heldur áfram. Þjóðin gengur vongóð út í sumarið.